Sagan

Byggt á áratuga samstarfi í átt að launajafnrétti. 

Byggt á sérstöðu sveitarfélaga

Á tíunda áratug síðustu aldar var, á vettvangi sveitarfélaga, litið svo á að sú aðferðafræði sem byggt var á við launaröðun starfa stæðist ekki fyllilega kröfur jafnréttislaga um að konum og körlum skyldu greidd jöfn laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Í framhaldi var farið að huga að innleiðingu starfsmatskerfis á vegum sveitarfélaganna. Var því farið í þá vegferð að innleiða starfsmatskerfi sem stuðlað gæti að gagnsæi og málefnalegum launaákvörðunum byggt á þeim kröfum sem starf gerir til starfsfólks.

Það starfsmatskerfi sem talið var henta best var starfsmatskerfi bresku sveitarfélaganna. Kerfið var hannað af hópi sérfræðinga í samvinnu við sveitar- og stéttarfélög í Bretlandi og að hönnun þess komu einnig sérfróðir ráðgjafar um launajafnrétti. Auk þess var það unnið með Alþjóðavinnumálastofunun (ILO) til þess að kerfið væri í samræmi við alþjóðalög og sáttmála en ILO hefur lagt áherslu á notkun starfsmatskerfa til að tryggja launajafnrétti. Kerfið var aðlagað að íslenskum aðstæðum, fékk nafnið SAMSTARF og var innleitt á sama tíma hjá borginni og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Allt frá innleiðingu hafa sveitarfélögin unnið markvisst að því að auka hlutfall starfa sem eru metin með þessum hætti til að ná því markmiði að öll störf séu metin út frá sömu viðmiðum.

Með hátt í tveggja áratuga reynslu af starfsmati hafa sveitarfélögin ákveðna sérstöðu. Þar hefur orðið til dýrmæt reynsla og skilningur á mikilvægi þess að starfsmatskerfin sem notuð eru, til grundvallar launasetningu, stuðli að launajafnrétti án tillits til kyns, uppruna, þjóðernis og annarra mismununarbreyta. Þar er einnig skilningur á því að til að svo megi vera þurfi starfsmatskerfi að byggja á þekkingu á stöðu kvenna og jaðarsettra hópa á vinnumarkaði og sögulegum og samfélagslegum áhrifum á verðmætamat starfa.

Eftir því sem meiri reynsla hefur komist á rekstur starfsmatskerfisins og jafnlaunamál fengið meiri athygli m.a. í tengslum við lögfestingu jafnlaunavottunar hefur þörf stjórnenda hjá sveitarfélögum fyrir fræðslu og ráðgjöf í tengslum við starfsmat og jafnlaunamál almennt aukist.