Skýrslu um virðismat starfa skilað til forsætisráðherra

13.02.24  Skýrslu um virðismat starfa skilað til forsætisráðherra

Aðgerðahópur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði sem var skipaður af Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í árslok 2021 hefur skilað skýrslu. Aðgerðahópurinn var skipaður með það að markmiði að koma á fót þróunarverkefni um mat á virði starfa í því skyni að útrýma launamun sem skýrist af kynskiptum vinnumarkaði og kerfisbundnu vanmati á hefðbundnum kvennastörfum.

Fjórar opinberar stofnanir tóku þátt í umræddu þróunarverkefni sem unnið var í samstarfi við Jafnlaunastofu og miðaði m.a. að því að ná fram breiðari nálgun á virðismati starfa en hefur áður verið gert hjá ríkinu. Jafnlaunastofa vann upplegg að virðismatskerfi í þágu launajafnréttis sem aðgerðahópurinn leggur til að verði fullmótað í samstarfi við þátttökustofnanir og störf metin byggt á því.

Tillögur aðgerðahópsins eru eftirfarandi:

  • Unnið verði áfram með þátttökustofnununum fjórum í áframhaldandi mati allra starfa og farið í launagreiningu. Markmið verði m.a. að meta kostnað við leiðréttingu hópa ef til þess kemur.
  • Stofnað verði til samstarfsverkefnis um heildstætt virðismatskerfi sem taki til ríkisstofnana til að byrja með. Verkefnið er mikilvægt langtímaverkefni þar sem kalla þarf að borðinu þá aðila sem best þekkja til og byggja á reynslu af slíkum kerfum hér á landi og erlendis.
  • Forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti og aðilar vinnumarkaðarins stofni starfshóp sem fengi það hlutverk að þróa samningaleið að nýsjálenskri fyrirmynd með verkstjórn ríkissáttasemjara. Í því felst að komið verði á aðgengilegri samningaleið til að fjalla um jafnlaunakröfur einstaklinga.
  • Ráðuneytin, aðilar vinnumarkaðarins og Jafnlaunastofa vinni í sameiningu að gerð verkfæra og fræðslu sem styðji við samstarfsverkefni um heildstætt virðismatskerfi.

„Ég fagna mjög þeirri framsæknu vinnu sem unnin hefur verið á vettvangi aðgerðahópsins og tel eftirfylgni þeirra tillagna sem settar eru fram í skýrslunni nauðsynlegt næsta skref til að útrýma þeim kynbundna launamun sem eftir stendur á vinnumarkaði“, segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Jafnlaunastofa fagnar þessum áfanga og áformum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um að útrýma launamun kynjanna með áherslu á virðismat starfa. 

 

Vel sóttur morgunfundur um samstarf sveitarfélaga í jafnlaunamálum.

Launamunur kynjanna og reynsla sveitarfélaga af notkun starfsmats til að sporna gegn honum voru til umfjöllunar á morgunfundi um samstarf sveitarfélaga í jafnlaunamálum sem haldinn var á Hótel Reykjavík Natura mánudaginn 20. febrúar 2023. Fundurinn var vel sóttur af starfsfólki sveitarfélaga og fulltrúum stéttarfélaga en um 50 manns mættu á staðfund og um 80 manns fylgdust með streymi af fundinum.

Það er því ljóst að umræða um launajafnrétti á hljómgrunn enda er enn nokkuð í að launajafnrétti verði náð hér á landi. Samkvæmt tölum Hagstofunnar um launamun kynjanna fyrir árið 2021 mældist launamunur 13,9% á almennum vinnumarkaði, 10% hjá starfsfólki ríkisins og 6,1% á meðal starfsfólks sveitarfélaga. Sveitarfélög skera sig þarna úr og má rekja sérstöðu þeirra, alla vega að hluta, til notkunar starfsmatskerfis við launasetningu grunnlauna flestra starfa sveitarfélaganna. Á fundinum var fjallað um þessa sérstöðu sveitarfélaganna, um sögu starfsmatskerfisins og tilkomu Jafnlaunastofu ásamt því að fjalla um áhrif starfsmats og virðismatskerfa almennt á launamun kynjanna.

Inga Rún Ólafsdóttir, sviðsstjóri kjarasviðs hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og stjórnarkona í stjórn Jafnlaunastofu fjallaði um samstarf sveitarfélaga í jafnlaunamálum m.a. í gegnum innleiðingu og rekstur starfsmatkerfisins SAMSTARFS og árangur þess. Lóa Birna Birgisdóttir sviðsstjóri mannauðs- og starfsumhverfissviðs Reykjavíkurborgar og formaður stjórnar Jafnlaunastofu tók við þar sem erindi Ingu Rúnar sleppti og fjallaði um það hvernig samstarf sveitarfélaganna í jafnlaunamálum hefur verð útvíkkað og eflt með stofnun Jafnlaunastofu. Ræddi hún um hlutverk Jafnlaunastofu og verkefni og setti í samhengi við sérstöðu sveitarfélaganna. Þá fjallaði Helga Björg O. Ragnarsdóttir, framkvæmdastýra Jafnlaunastofu um starfsmat og önnur virðismatskerfi sem leið að launajafnrétti. Hún fjallaði um samspil virðismatskerfa og jafnlaunastaðals og tengsl mismunandi launasetningarmódela við virðismat starfa og launamun kynjanna. Rósa Björk Bergþórsdóttir teymisstjóri Verkefnastofu starfsmats fjallaði í sínu erindi um starfsemi Verkefnastofu starfsmats og vinnu- og verklag í tengslum við starfmatið. Þá gerði hún grein fyrir fræðslu og ráðgjöf sem verkefnastofan býður upp á og hvatti starfsfólk sveitarfélaga og stéttarfélaga til að leita fræðslu og ráðgjafar hjá þeim. Arna Jakobína Björnsdóttir formaður Kjalar stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu fjallaði um gildi starfsmats við launasetningu og minnti meðal annars á að til að starfsmatskerfið þjóni markmiðum sínum um launajafnrétti þurfi að tryggja að kerfið þróist í samræmi við þróun starfa og að vandað sé til verka við gerð starfslýsinga og við skilgreiningar á störfum. Að lokum fjallaði Harpa Hrund Berndsen, sérfræðingur á mannauðs- og starfsumhverfissviði Reykjavíkurborgar um þróun launamunar kynjanna hjá Reykjavíkurborg undanfarna tæpa þrjá áratugi og áhrif starfsmats á þá þróun.

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og borgarfulltrúi var fundarstjóri og notaði tækifærið til að hvetja sveitarfélög til að halda áfram markvissri vinnu að launajafnrétti kynjanna og vera öðrum atvinnurekendum fyrirmynd með því að loka launabilinu á vettvangi sveitarfélaganna.

Kynningar frá fundinum