Starfsmat
Starfsmat stuðlar að málefnalegri, hlutlægri og samræmdri launasetningu starfa og dregur úr launamisrétti.
Mat á virði starfa
Markmið starfsmats kerfa er að tryggja, eins og kostur er, að starfsfólki séu ákvörðuð laun með málefnalegum og hlutlægum hætti. Á það að leiða til grunnlaunasetningar þar sem jafn verðmæt störf fá sömu röðun, óháð kyni, uppruna, starfsstöðum, stéttarfélagi, eða öðrum breytum. Frá síðustu aldamótum hafa Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg byggt launasetningu sífellt stærri hluta starfa sinna á starfsmatskerfinu SAMSTARF. Kerfið er greiningartæki sem notað er til að meta með kerfisbundnum og samræmdum hætti þær kröfur sem störf gera til starfsfólks. Kerfið byggir á hlutlægum viðmiðum sem notuð eru til að bera saman störf í samræmi við þær kröfur sem í störfunum felast, óháð hæfni þeirra sem þau vinna.
Notkun starfsmats gerir launaákvarðanir skýrar, sýnilegar og aðgengilegar starfsfólki og eru því mikilvægur liður í að uppfylla jafnlaunaákvæði laga um að starfsfólki séu greidd sömu laun fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf.
Starfsfólk Verkefnastofu starfsmats vinnur tillögur að mati á störfum eftir starfsmatskerfinu. Þær tillögur eru lagðar fyrir viðeigandi nefndir Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga til afgreiðslu.
Í nefndunum sitja auk atvinnurekenda, fulltrúar viðeigandi stéttarfélaga. Allar samþykktir á mati á virði starfa þurfa að vera einróma. Frekari upplýsingar um starfsmatskerfið má finna á heimasíðu Verkefnastofu Starfsmats.